Emma - In Memoriam
Í tæpa tvo mánuði fylgdumst við með baráttu Emmu Katrínar fyrir lífi sínu. Baráttu sem ljóst var orðið nokkru áður en henni lauk að ekki gæti farið nema á einn veg. Sorgin og vanmátturinn eru allt að því óbærileg og horft er niður í hyldýpi tilgangsleysis. Á sama tíma ekki hægt annað en að fyllast aðdáun á þeim ótrúlega krafti, dugnaði og æðruleysi sem einkenndi þessa litlu manneskju þar sem hún tókst á við sársauka og aðstæður sem enginn ætti nokkurntíma að þurfa að ganga gegnum. Við trúðum því kannski aldrei alveg að vonin væri farin – enda þá ekki mikið eftir. Fréttin að nú væri öllu lokið var því reiðarslag, þrátt fyrir að við hefðum haft vitneskju um það í tæpa viku að ekkert fleira væri hægt að gera. Vonin er lífseig, þótt búið sé að bannfæra hana, hún lætur ekki að sér hæða og grær innra með okkur þótt að jarðvegurinn sé vart til staðar.
Náskyld voninni er trú okkar á að hlutirnir hljóti að hafa tilgang. Við getum ekki sætt okkur við að barn eins og Emma sé einfaldlega tekið frá okkur í fullkomnu tilgangsleysi. Hún sem var svo lífsglöð og dugleg, ljúf og á sama tíma framtaksöm, ein af þeim sem framtíðin beið eftir með útbreiddan faðminn. Þær þjáningar sem Emma og fjölskylda hennar hafa þurft að ganga í gegnum og sú sorg og sá söknuður sem fráfall hennar ber með sér, geta ekki annað en haft tilgang. Þótt ekki sé hann annar en að leiða huga okkar að kærleikanum og mikilvægi manngæsku og vináttu.
Gréta og Gísli hafa verið fastir punktar í tilveru okkar þriggja frá því við vorum undir tvítugu. Aldrei hefur nokkurn skugga borið á þá vináttu, börnin okkar allra hafa kynnst hvert öðru og góðu sambandi verið haldið, þrátt fyrir að öll höfum við búið til lengri og skemmri tíma á hinum ólíklegustu stöðum veraldarinnar. Það hefur alltaf verið tilhlökkunarefni að hitta hópinn þegar sem flestir hafa verið staddir á landinu, eiga saman skemmtilegar stundir og skapa góðar minningar. Einhvernveginn var það þannig að þegar einhvern vantaði í hópinn þá var það vegna þess að hann var í útlöndum og það skipti ekki öllu máli – hann yrði bara með næst.
Barátta Emmu og fjölskyldunnar hefur orðið til þess að við skiljum enn betur en áður hversu ótrúlega mikils virði góðir vinir eru okkur – þeir eru okkar önnur fjölskylda, næring sem sálin getur ekki blómstrað án.
Þegar við misstum Emmu þá misstum við eitt af okkar börnum, við verðum aldrei söm aftur.
Elsku vinir, Gréta, Gísli, Baldvin og Greipur. Sorg ykkar er mikil en minning um fallega og bjarta stúlku lifir í hjörtum okkar allra.
Sigfríður, Elín, Eiríkur og fjölskyldur
3 Comments:
Mjög fallega skrfiað.
Kveðja Sunna.
Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra.
Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra,
Eyrún
Post a Comment
<< Home